Fótbolti

Real Madrid vill stórar skaða­bætur frá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar einu af mörkum sínum fyrir Real Madrid en félagið vill sækja pening í sjóði UEFA í formi skaðabóta.
Kylian Mbappe fagnar einu af mörkum sínum fyrir Real Madrid en félagið vill sækja pening í sjóði UEFA í formi skaðabóta. Getty/Diego Souto

Spænska félagið Real Madrid mun krefjast umtalsverðra skaðabóta frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, eftir að evrópska knattspyrnusambandið tapaði áfrýjun sinni í tengslum við Ofurdeildina.

Úrskurður frá héraðsdómstóli Madrídar á miðvikudag staðfesti úrskurð frá maí 2024.

Í þeim úrskurði kom fram að UEFA, spænska knattspyrnusambandið og La Liga hefðu iðkað samkeppnishamlandi hegðun og misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að banna félögum að ganga í Ofurdeildina á sínum tíma.

Svar UEFA-manna er að nýjasti dómurinn staðfesti ekki verkefnið um aðild að Ofurdeildinni og grafi undan núverandi leyfisreglum UEFA. 

Real Madrid var eitt af tólf evrópskum félögum, þar á meðal sex liðum í ensku úrvalsdeildinni, sem ætluðu að ganga í Ofurdeildina árið 2021 en hættu flest við vegna þrýstings frá stjórnvöldum og stuðningsmönnum félaganna.

Í öðrum dómi úrskurðaði Evrópudómstóllinn í desember 2023 að það væri ólöglegt að banna félögum að ganga í Ofurdeildina, sem leiddi til þess að UEFA uppfærði reglur sínar.

„Real Madrid fagnar ákvörðun héraðsdómstólsins í Madríd um að hafna áfrýjunum sem UEFA, RFEF og La Liga höfðuðu, og staðfestir að UEFA, í máli Ofurdeildarinnar, hafi alvarlega brotið gegn samkeppnisreglum Evrópusambandsins í samræmi við úrskurð dómstólsins og misnotað markaðsráðandi stöðu sína,“ sagði í yfirlýsingu frá fimmtánföldum Evrópumeisturunum.

„Þessi úrskurður ryður brautina fyrir félagið til að krefjast verulegra skaðabóta frá UEFA.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×