Enski boltinn

Slot: Engin auka pressa við þetta tap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, niðurlútur á hliðarlinunni í tapleiknum á móti Crystal Palace í gærkvöldi.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, niðurlútur á hliðarlinunni í tapleiknum á móti Crystal Palace í gærkvöldi. Gety/Molly Darlington

Vandræði Liverpool versna og stækka með hverjum leik og hverju tapi. Liðið steinlá 3-0 á heimavelli á móti Crystal Palace í enska deildabikarnum í gærkvöldi.

Liverpool hefur nú tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum. Í stað þess að tefla fram sterku liði og reyna að koma liði sínu aftur í gang þá hvíldi knattspyrnustjórinn Arne Slot marga lykilmenn í gær og stillti upp hálfgerðu varaliði. Hann gerði tíu breytingar á byrjunarliðinu frá tapi á móti Brentford um síðustu helgi.

„Það er alltaf áfall að tapa fótboltaleik, sérstaklega ef það leiðir til þess að maður dettur úr keppni. Þetta er samt sams konar liðsval hjá mér í kvöld og ég var með á síðustu leiktíð á þessu stigi í þessari keppni,“ sagði Slot.

„Það eru eflaust margar ástæður fyrir því að við höfum tapað sex af sjö leikjum. Engin þeirra er nógu góð til að sætta sig við að tapa svona mörgum leikjum. Ég get því komið með rök eða ástæður, en engin þeirra mun duga. Því hjá Liverpool er það alltaf of mikið að tapa fimm eða sex, sex eða sjö,“ sagði Slot. En það bættist engin auka pressa við þrátt fyrir þetta tap.

„Ef þú ert á svona úrslitalínu, ef þú spilar fyrir Liverpool, ef þú stýrir Liverpool, þá veistu að pressan er til staðar. Og ég held ekki að það hafi breyst mikið eftir þetta tap,“ sagði Slot sem sá þó eitthvað jákvætt við kvöldið.

„Aðdáendurnir stóðu á bak við liðið í kvöld, studdu okkur og það gefur mér þá góða tilfinningu fyrir laugardeginum. Þá munu okkar leikmenn sýna þeim hversu mikið þetta þýðir fyrir þá og þá munu aðdáendur okkar veita þeim ótrúlegan stuðning,“ sagði Slot.

Það gæti skipt miklu máli fyrir Liverpool ef Ryan Gravenberch snýr aftur fyrir leikinn gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina en það er ólíklegra að framherjinn Alexander Isak, sem meiddist á nára gegn Frankfurt í Meistaradeildinni, verði með.

„Ég held að Ryan eigi góða möguleika. Við skulum bíða og sjá til á morgun og föstudag með hina. Ég þekki ekki stöðuna á öllum en ég held að Ryan eigi besta möguleikann af öllum sem eru meiddir,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×