Innlent

Heitavatnslaust á Suður­nesjum og raf­magns­laust víða um land

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ragmagnslínur á Reykjanesi. Á Suðurnesjum er víðast hvar heitavatnslaust sem stendur og rafmagnslaust er víða um land, meðal annars í Grindavík.
Ragmagnslínur á Reykjanesi. Á Suðurnesjum er víðast hvar heitavatnslaust sem stendur og rafmagnslaust er víða um land, meðal annars í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Heitavatnslaust varð víða á Suðurnesjum í kvöld eftir að dælustöð fyrir heita vatnið sló út vegna rafmagnstruflunar. Truflunin varð þegar tenging HS Veitna við Landsnet sló út fyrr í kvöld sem jafnframt olli rafmagnsleysi í Grindavík, Vestfjörðum og víðar í dreifikerfinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti var um að ræða stóra truflun í landskerfinu sem olli rafmagnsleysi víða um land um tíma. Bilaður eldingavari í tengivirki Landsnets á Fitjum á Reykjanesi er talinn hafa valdið trufluninni.

Fram kom í færslu frá HS Veitum á Facebook að heitavatnsleysið eigi við í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, á Keflavíkurflugvelli og í Vogum. Dælustöðin var komin aftur í gang um ellefu leitið í kvöld og í framhaldinu byrjaði heitt vatn aftur að streyma til notenda á svæðinu.

Um var að ræða stóra truflun í landskerfinu. „Truflun varð í raforkukerfinu og landskerfið skiptist upp í tvær eyjar. Rafmagnslaust er víða um land,“ sagði í fyrstu tilkynningu um málið á vef Landsnets.

Síðar barst önnur tilkynning frá Landsneti eftir að rafmagn var aftur komið á um land allt laust eftir klukkan ellefu í kvöld.

Vísir fylgdist með framvindunni í kvöld í vaktinni hér að neðan. Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×