Enski boltinn

Hárið í hættu hjá United manninum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United-stuðningsmaðurinn Frank Ilett fagnar bæði góðu gengi sinna manna en einnig að sjá allt í einu klippingu í hillingum.
Manchester United-stuðningsmaðurinn Frank Ilett fagnar bæði góðu gengi sinna manna en einnig að sjá allt í einu klippingu í hillingum. EPA/ADAM VAUGHAN/@theunitedstrand

Manchester United-stuðningsmaðurinn Frank Ilett hefur vakið heimsathygli síðan hann hætti að klippa hárið sitt þangað til liðið hans færi á góða sigurgöngu.

Ilett ætlar ekki að klippa hárið sitt fyrr en United vinni fimm leiki í röð.

Hægt er að fylgjast með Ilett telja dagana síðan að liðið fór á alvöru sigurgöngu á Instagram-síðunni The United Strand sem er þegar komin með meira en 554 þúsund fylgjendur.

Hárið hans hefði ekki enst lengi á gullaldarárunum á Old Trafford en gengið hefur verið skelfilegt síðustu mánuði og hann er því kominn með afar myndarlegan lubba.

Fyrir nokkrum vikum var útlitið heldur ekki gott og sumir farnir að halda að greyið kæmist aldrei í klippingu.

Nú eru United-menn komnir á mikið flug og hafa nú unnið þrjá leiki í röð. Það vantar því bara tvo sigra í viðbót til að hann komist í klippingu.

Manchester United er meira að segja komið upp fyrir Englandsmeistara Liverpool í töflunni og sitja eins og er í sjötta sætinu.

Ilett hefur líka tilkynnt að hann ætli að gefa hárið til góðgerðamála þegar kemur loksins að því að klippa það.

Það gæti verið stutt í það en næstu tveir leikir United-liðsins eru á móti Nottingham Forest á útivelli og Tottenham á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×