Sport

Úrvalsdeildin hefst á morgun: Alexander mætir mömmu sinni í fyrsta leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Steinunn Dagný Ingvarsdóttir ætti að kunna ágætlega á Alexander Veigar Þorvaldsson.
Steinunn Dagný Ingvarsdóttir ætti að kunna ágætlega á Alexander Veigar Þorvaldsson. vísir

Úrvalsdeildin í pílukasti hefur göngu sína á Sýn Sport á morgun, laugardagskvöld, og silfurverðlaunahafinn frá síðasta ári mun opna mótið með leik gegn mömmu sinni.

Alexander Veigar Þorvaldsson varð í öðru sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta ári og stefnir á sigur í ár. Fyrsta hindrun á hans vegi verður móðir hans, Steinunn Dagný Ingvarsdóttir, en þau mætast í fyrsta leik átta liða úrslita á morgun.

Vitor Charrua á titilinn að verja og mætir Guðjóni Haukssyni, fulltrúa eldri borgara.

Matthías Örn Friðriksson, margfaldur Íslandsmeistari, mætir Jóni Bjarma Sigurðssyni sem er að stíga skrefið úr bílskúrnum heima hjá sér og á stóra sviðið í sjónvarpinu.

Kristján Sigurðsson mætir svo matreiðslumeistaranum Gunna Hó í síðustu viðureign átta liða úrslitanna.

Hér má sjá keppendurna á fyrsta kvöldi Úrvalsdeildarinnar.  vísir

Mótið á morgun fer fram á Selfossi og næsta föstudag verður spilað í Grindavík en eftir það fara allar keppnir fram á Bullseye í Reykjavík.

Spilað er til þrautar, þar til sigurvegari kvöldsins er krýndur. Allar viðureignir verða „best of 5“ viðureignir, þar sem þrjá sigra þarf til að vinna.

Alls taka sextán manns þátt í Úrvalsdeildinni í ár en eftir fyrstu fjögur kvöldin verður hópurinn skorinn niður í átta keppendur. Eftir niðurskurð munu átta efstu keppendurnir spila upp á að komast í undanúrslitin og þaðan í úrslitin sem fara fram föstudaginn 6. desember.

Úrvalsdeildin í pílukasti verður í beinni útsendingu á Sýn Sport annað kvöld klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×