Fótbolti

Leik­menn í spænsku úr­vals­deildinni lögðu niður störf í mót­mæla­skyni

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn Atletico Madrid og Osasuna stóðu hreyfingarlausir þrátt fyrir að leikur væri formlega farinn af stað
Leikmenn Atletico Madrid og Osasuna stóðu hreyfingarlausir þrátt fyrir að leikur væri formlega farinn af stað EPA/SERGIO PEREZ

Allir leikir í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag hófust með táknrænum mótmælum þar sem leikmenn stóðu hreyfingalausir fyrstu 15 sekúndurnar eftir að leikirnir voru flautaðir á.

Tilefni mótmælanna er fyrirhugaður leikur Barcelona og Villarreal sem á að fara fram í Miami í Bandaríkjunum 20. desember næstkomandi. Leikmannasamtökin á Spáni skipulögðu mótmælin í samvinnu við fyrirliða allra liða í deildinni en þau saka deildina um skort á gegnsæi, samtali og samræmi.

Deildin hefur brugðist við mótmælunum og hafnað ásökunum leikmannasamtakanna og að deildin sé viljug til að funda með samtökunum og útskýra hvað þeim gengur til með því að færa umræddan leik til Bandaríkjanna.

Xabi Alonso, þjálfari Real Madrid, hefur tjáð sig um málið en hann segist vera mótfallinn því að leika erlendis.

„Við erum mótfallnir þessum leik og teljum að þetta muni skekkja samkeppnina í deildinni. Þetta hefur ekki verið einróma samþykkt né samráð haft við alla um að spila á hlutlausum leikvangi. Mótmælin eru jákvæð og skilaboðin sem þau senda eru það einnig. Við teljum að þetta gæti orðið alveg að veruleika með samráði en það hefur ekki verið hingað til.“

Leikmenn Barcelona og Villareal hafa ekki verið beðnir um að taka þátt í mótmælunum til að koma í veg fyrir mögulegan hagsmunaárekstur eða að mótmælin séu á einhvern hátt túlkuð þannig að þau beinist gegn liðunum sem eiga að spila leikin í Miami en mótmælin fóru engu að síður fram í leik Barcelona og Girona í dag.

Mótmælt var á öllum leikjum umferðinnar í spænsku deildinni í dag sem og í leik Real Oviedo og Espanyol sem fram fór í gær en sjónvarpsáhorfendur eru mögulega algjörlega grunlausir um mótmælin þar mótmælin voru ekki sýnd í sjónvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×