Fótbolti

Messi með nýtt fót­bolta­mót og býður öllum „fé­lögunum sínum“ nema einu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með strákunum sínum þremur sem eru allir efnilegir fótboltamenn.
Lionel Messi með strákunum sínum þremur sem eru allir efnilegir fótboltamenn. EPA/ADAN GONZALEZ

Lionel Messi vill passa upp á næstu kynslóðir fótboltans. Hann er ekki aðeins fyrirmynd sem besti knattspyrnumaður allra tíma heldur vill hann líka skapa vettvang fyrir næstu kynslóð.

Messi-bikarinn er nýtt alþjóðlegt unglingamót sem fer fram í Miami dagana 9. til 14. desember næstkomandi og þar mæta til leiks nokkrar af bestu knattspyrnuakademíum heims.

Í fyrstu útgáfu mótsins munu átta sextán ára lið keppa en þau koma frá FC Barcelona, Atlético Madrid, Manchester City, Chelsea, Inter Milan, River Plate, Newell’s Old Boys og Inter Miami.

Öll liðin munu keppa á völlum Inter Miami, þar á meðal Chase Stadium og Florida Blue Training Center. Liðunum verður skipt í tvo riðla áður en útsláttarkeppni sker úr um hverjir lyfta fyrsta Messi-bikarnum.

Með því að leiða saman félög sem marka mismunandi skeið á ferli hans – allt frá Newell’s Old Boys, þar sem allt hófst, til Barcelona, þar sem hann varð goðsögn, og nú Inter Miami, núverandi heimili hans – brúar Messi kynslóðir í gegnum íþróttina sem gerði hann að goðsögn.

Það vantar bara eitt félag á hans ferli og það er franska félagið Paris Saint Germain. Messi upplifði ekki góða tíma í París og hefur ekkert verið að fela það. Þetta er enn ein sönnun þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×