Sport

Elísa: Ég hefði kosið sigur

Árni Jóhannsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir í leik með Val í sumar.
Elísa Viðarsdóttir í leik með Val í sumar. Vísir/ÓskarÓ

Valur og Breiðablik skildu jöfn 1-1 í næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Fyrirliði Vals, Elísa Viðarsdóttir, hefði að sjálfsögðu viljað sigur en gat verið sátt með jafnteflið.

„Heiltyfir 50/50 leikur og hefði getað dottið beggja vegna. Við náðum hins vegar að skapa okkur opnari færi og vorum meira í að fá stöðurnar einn á móti markmanni, en því miður vildi boltinn ekki inn. Þetta var líflegur leikur og líflegar síðustu mínútur,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, eftir leikinn.

Valur komst í ofboðslega góðar stöður á lokamínútum leiksins og hefðu hæglega getað stolið sigrinum.

„Ég hefði kosið sigur en úr því sem komið var, þá er jafntefli allt í lagi. Maður vill alltaf vinna á heimavelli. Við lögðum mikið í þetta í dag og ég held við höfum alveg náð að skapa okkur færi til þess að knýja fram þrjú stig, en það fór sem fór.“

Síðasta umferð Bestu deildar kvenna er í næstu viku og þá tekur Þróttur á móti Val í Laugardalnum.

„Maður getur alltaf tekið eitthvað með sér úr leiknum og það er kannski bara stoltið fyrir okkur sjálfar og fyrir félagið. Að spila saman sem lið og mæta með gleðina að vopni í næsta leik og reyna að enda mótið vel,“ sagði Elísa, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×