Fótbolti

„Mér finnst hún skipta sér af málum sem koma henni ekki við“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Moshe Zuares er forseti ísraelska knattspyrnusambandsins en hann sést hér á ársþingi FIFA.
Moshe Zuares er forseti ísraelska knattspyrnusambandsins en hann sést hér á ársþingi FIFA. Getty/Thananuwat Srirasant

Forseti ísraelska knattspyrnusambandsins gagnrýnir kollega sinn í norska knattspyrnusambandinu en Noregur og Ísrael mætast í undankeppni HM um næstu helgi.

Moshe Zuares, forseti ísraelska knattspyrnusambandsins, ræddi við norsku sjónvarpsstöðina TV2 þar sem hann gagnrýndi Lise Klaveness sem er forseti norska sambandsins.

Þau Zuares og Klaveness sitja saman í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA).

„Við eigum í góðu sambandi en ég á í vandræðum með að sætta mig við skoðanir hennar og viðbrögð. Mér finnst hún skipta sér af málum sem koma henni ekki við,“ sagði Moshe Zuares við TV2.

Hann heldur því meðal annars fram að Klaveness og norska knattspyrnusambandið hafi ekki sýnt hans þjóð samúð eftir hryðjuverkaárásina á Ísrael 7. október 2023.

„Hinn 7. október sendi hún mér ekki skilaboð eða hringdi í mig. Ekki heldur 8. eða 9. október. Hún sagði ekkert um það sem gerðist hér, ekki hálft orð,“ sagði Zuares.

TV2 bar þetta undir norska forsetann sem segir þetta ekki vera satt.

„Það er ekki rétt. Ég sendi honum persónuleg skilaboð daginn eftir 7. október. Ég sendi líka skilaboð þegar ár var liðið og fékk svar í bæði skiptin. Þetta voru einlæg skilaboð, því þetta var hræðileg árás. Við lýstum yfir okkar dýpstu samúð og samkennd og fengum svar til baka,“ segir Klaveness.

Klaveness hefur talað hreint út um það að henni finnist persónulega að Ísrael, líkt og Rússland, hefði átt að vera útilokað frá alþjóðlegri knattspyrnu, vegna árása sinna á íbúa og heimili þeirra á Gasaströndinni. Þetta sagði hún síðast nýlega í hlaðvarpinu Pop og politikk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×