Enski boltinn

Stjörnuleikmaður Liverpool missir af mörgum stórleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson Becker verður ekki með Liverpool á næstunni.
Alisson Becker verður ekki með Liverpool á næstunni. EPA/ADAM VAUGHAN

Englandsmeistarar Liverpool fengu ekki nógu góðar fréttir af brasilíska markverði sínum Alisson Becker.

Alisson meiddist í tapleiknum á móti Galatasaray í Meistaradeildinni í vikunni. Brassinn er einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar en nú þurfa Liverpool menn að treysta á Georgíumanninn Giorgi Mamardashvili.

Knattspyrnustjórinn Arne Slot staðfesti það á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar að Alisson verði lengi frá. Liverpool mætir Chelsea um helgina.

„Hann verður ekki með okkur um helgina og mun ekki taka þátt í næsta landsliðsverkefni með Brasilíu. Það kæmi mér líka á óvart ef hann gæti spilað í fyrstu leikjum okkar eftir landsleikjahléið,“ sagði Arne Slot.

Slot vill þó ekki útiloka neitt en segir að þetta fari mikið eftir því hvernig endurhæfingin hans gengur. Markvörðurinn tognaði aftan í læri.

The Athletic hélt því fram að Alisson komi ekki til baka fyrr en eftir landsliðsgluggann í nóvember.

Alisson mun því væntanlega missa af mörgum stórleikjum á næstunni þar á meðal leikjum á móti bæði Manchester City og Real Madrid.

Næstu deildarleikir fram að landsleikjaglugganum í nóvember eru leikir á móti Chelsea, Manchester United, Brentford, Aston Villa og Manchester City.

Það eru betri fréttir af Hugo Eitike sem mun æfa með Liverpool í dag og það gerir einnig Frederico Chiesa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×