Enski boltinn

Ný­byrjaður en hans eigin stuðnings­menn sungu: „Þú verður rekinn í fyrra­málið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ange Postecoglou hefur byrjað skeflilega sem knattspyrnustjóri Nottingham Forest.
Ange Postecoglou hefur byrjað skeflilega sem knattspyrnustjóri Nottingham Forest. EPA/Julio Munoz

Byrjun Ange Postecoglou sem knattspyrnustjóri Nottingham Forest hefur fljótt breyst í algjöra martröð. Hann hefur enn ekki unnið leik og Forest tapaði á móti dönsku félagi í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

Postecoglou hefur verið aðeins í starfinu í þrjár vikur en liðið hefur spilað fyrstu sex leikina undir hans stjórn án þess að ná að fagna sigri.

Hann varð með því fyrsti knattspyrnustjóri Nottingham Forest í heila öld sem nær ekki að vinna einn af fyrstu sex leikjum sínum.

Forest tapaði 3-2 á móti Elíasi Rafni Ólafssyni og félögum í Midtjylland í gær.

Þegar Valdemar Byskov skoraði þriðja mark danska liðsins í leiknum mátti heyra stuðningsmenn Nottingham Forest syngja: „Þú verður rekinn í fyrramálið“.

Það er ekki oft sem þú heyrir stuðningsmenn syngja þannig um knattspyrnustjóra sinn hvað þá þegar hann er ekki búinn að vera í starfinu í einn mánuð.

„Stuðningsmennirnir eru vonsviknir og þeir mega alveg hafa sína skoðun. Ég heyrði í þeim,“ sagði Ange Postecoglou eftir leikinn. Breska ríkisútvarpið sagði frá.

Postecoglou fékk ekki að halda áfram með Tottenham síðasta vor þrátt fyrir að koma liðinu í Meistaradeildin. Hann fékk tækifæri hjá Forest þegar Espírito Santo var rekinn í byrjun september.

„Það kemur mér ekkert á óvart í fótboltanum. Þetta eru aðstæðurnar sem við vinnum í. Ég get ekki stjórnað því,“ sagði Postecoglou.

Þetta var fyrsti Evrópuleikur Forest á heimavelli sínum City Ground í 29 ár. Það gerði þetta tap enn sárara fyrir svekkta stuðningsmenn liðsins. Nokkrum dögum fyrr hafði liðið tapaði 1-0 á móti nýliðum Sunderland í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég vildi frekar að fólkið væri bjartsýnna á það sem ég er að gera. Ég get bara breytt því með því að fara að vinna fótboltaleiki,“ sagði Postecoglou.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×