Viðskipti innlent

Spá ó­breyttum stýrivöxtum í næstu viku

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hildur Margrét Jóhannsdóttir starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir starfandi aðalhagfræðingur Landsbankans. Vísir/Ívar Fannar

Greiningardeild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd muni halda stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Nefndin mun kynna vaxtaákvörðun sína á miðvikudag í næstu viku, þann 8. október.

Í tilkynningu frá greiningardeildinni á vef Landsbankans segir að verðbólga hafi haldist á þröngu bili í kringum 4 prósent frá því í febrúar. Horfur séu á nær óbreyttri verðbólgu á næstu mánuðum. Áfram megi greina skýr merki um þenslu í hagkerfinu. Nær óhugsandi sé að peningastefnunefnd telji tímabært að halda vaxtalækkunarferlinu áfram.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hélt vöxtum óbreyttum þann 20. ágúst eftir að hafa lækkað vexti á fimm fundum þar á undan. Stýrivextir standa nú í 7,50 prósentum og ef tekið er mið af verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,4 prósentum.

Verðbólga haggist varla

Í greiningunni er rifjað upp að peningastefnunefnd hafi í síðustu yfirlýsingu um vaxtaákvörðun í ágúst sagt að frekari skref til lækkunar væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5 prósenta markmiði Seðlabankanks.

„Allt frá því í febrúar síðastliðnum hefur verðbólga verið á bilinu 3,8 prósent til 4,2 prósent. Þar á undan hafði hún hjaðnað nær stöðugt frá því um mitt síðasta ár og vaxtastigið var lækkað nokkurn veginn í takt við hjöðnunina. Vissulega er verðbólga ekkert í líkingu við verðbólguna fyrir tveimur og þremur árum - hún fór hæst í 10,2 prósent í febrúar 2023 - en þó má telja áhyggjuefni hversu hægt hún hjaðnar í háu vaxtastigi. Okkar nýjasta spá gerir ráð fyrir 4,2 prósent verðbólgu í október og 4,0 prósent í nóvember og desember.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×