Enski boltinn

Ekitike var ekki sektaður: „Það má gera mis­tök hjá þessu fé­lagi“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot segir Hugo Ekitike frábæra manneskju sem megi gera mistök.
Arne Slot segir Hugo Ekitike frábæra manneskju sem megi gera mistök. Carl Recine/Getty Images

Hugo Ekitike fékk frekar furðulegt rautt spjald í vikunni, fyrir að rífa sig úr að ofan eftir að hafa skorað sigurmark gegn Southampton, en slapp með tiltal og enga sekt frá þjálfara Liverpool.

Ekitike hafði fyrr í leiknum fengið gult spjald fyrir að kasta boltanum frá sér eftir flaut dómara, hann skoraði svo sigurmarkið eftir frábæran undirbúning Federico Chiesa og missti sig aðeins í fagnaðarlátunum, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hefð hefur myndast fyrir því í fótboltaheiminum að félög sekti leikmenn sem brjóta reglur, hvort sem það eru reglur um stundvísi, spjöld, eða eitthvað allt annað eins og að geta ekki haldið klofinu lokuðu í reitarbolta.

Slúðurblöðin í Bretlandi fóru á fullt í gær og greindu frá að Ekitike hefði verið sektaður um tveggja vikna laun fyrir rauða spjaldið gegn Southampton, en Arne Slot sagði svo ekki vera.

„Ég agaði hann til með því að tala við hann, en ef þú átt við hvort hann hafi verið sektaður þá nei, við gerum ekki svoleiðis“ sagði Slot á blaðamannafundi í dag.

Hann sagði Ekitike einnig átta sig á eigin mistökum og Liverpool sé ekki félag sem refsar með sektum. Ekitike sé líka, fyrst og fremst, frábær manneskja, ein af þremur bestu manneskjunum í liðinu.

„Þetta var ekki sniðugt, það sem hann gerði, hann áttaði sig strax á því og bað liðsfélaga sína afsökunar. Leikmenn af öllum aldri gera mistök og það má gera mistök hjá þessu félagi án þess að vera strax sektaður. Hann er frábær manneskja, þú getur spurt hvern sem er hjá klúbbnum og þau myndu setja hann á topp þrjá listann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×