Fótbolti

Funheitur Messi tryggði Inter Miami í úr­slita­keppnina

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Inter Miami.
Lionel Messi heldur áfram að raða inn mörkum fyrir Inter Miami. Getty/Dustin Satloff

Lionel Messi var á skotskónum með Inter Miami í nótt og skoraði tvö mörk í 4-0 sigri gegn New York City í bandarísku MLS-deildinni.

Argentínski landsliðsfyrirliðinn hefur nú skorað 24 mörk í 23 leikjum á tímabilinu og eftir sigurinn er öruggt að Inter Miami verður í úrslitakeppninni, þó að liðið eigi enn fimm leiki eftir. Mörkin úr leiknum í nótt má sjá hér að neðan.

Það var Baltasar Rodriguez sem kom Miami yfir rétt fyrir hálfleik, eftir frábæra stungusendingu Messi, og hinn 38 ára gamli Messi jók forskotið á 74. Mínútu.

Fyrrverandi liðsfélagi Messi hjá Barcelona, Luis Suárez, skoraði svo úr víti áður en Messi innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki.

„Við erum núna öruggir um að komast í úrslitakeppnina. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Núna höldum við bara áfram,“ sagði Javier Mascherano, þjálfari Inter Miami.

Messi hefur nú skorað fimm mörk á níu dögum, og að minnsta kosti tvö mörk í átta af síðustu tólf leikjum.

Miami er í þriðja sæti austurdeildarinnar, fimm stigum á eftir Philadelphia Union en með tvo leiki til góða. Fjórtán lið, sjö úr austurdeild og sjö úr vesturdeild, komast í 16-liða úrslit úrslitakeppninnar en hún hefst 22. október á umspili liðanna sem enda í 8.-9. sæti í deildunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×