Erlent

Gera loft­á­rásir á há­hýsi og vara við yfir­vofandi inn­rás

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Síðustu daga hefur herinn gert loftárásir á fjölda háhýsa og fjölbýlishúsa í Gasa-borg.
Síðustu daga hefur herinn gert loftárásir á fjölda háhýsa og fjölbýlishúsa í Gasa-borg. Getty/Anadolu/Ali Jadallah

Ísraelsher hefur fyrirskipað íbúum Gasa-borgar að yfirgefa borgina, vegna aukins þunga í loftárásum. Þá hefur forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu ráðlagt fólki að hafa sig á brott, þar sem innrás sé yfirvofandi.

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja 65 hafa verið drepna í árásum Ísraelsmanna á síðasta sólahring og um 320 hafa særst. 

Netanyahu sagði í ávarpi að á síðustu dögum hefði herinn fellt 50 „hryðjuverkaturna“ en þar væri aðeins um að ræða upphafsstefið að aðalatriðinu; innrás hersins inn í borgina. Þá ávarpaði hann íbúa borgarinnar beint: „Þið hafið verið varaðir við; farið núna“.

Íbúar leita að eigum sínum í rústum byggingar.Getty/Anadolu/Ali Jadallah

Varnarmálaráðherrann Israel Katz greindi frá því í morgun að herinn hefði eyðilagt 30 háhýsi í Gasa-borg, sem stjórnvöld segja hafa verið hernaðarinnviði Hamas. 

Þá sagði hershöfðinginn Avichay Adraee, talsmaður Ísraelshers á arabísku, á samfélagsmiðlum í morgun að íbúar ættu að forða sér. Það væri afar áhættusamt og hættulegt að verða eftir í borginni.“

Tugir þúsunda hafa þegar yfirgefið borgina og haldið suður. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamtök varað við því að aðgerðir Ísraelsmanna muni enn bæta á þjáningar íbúa Gasa, sem búa nú þegar við skort og hungursneyð.

Alls hafa 62 þúsund manns verið drepnir í árásum Ísraels á Gasa, í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna þann 7. október 2023. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×