Erlent

Allir í­búar munu geta höfðað mál vegna þungunarrofslyfja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þungunarrof með lyfjum stendur þeim konum til boða sem eru komnar stutt á leið.
Þungunarrof með lyfjum stendur þeim konum til boða sem eru komnar stutt á leið. Getty/Washington Post/Shuran Huang

Ríkisþing Texas hefur samþykkt ný lög sem gera öllum íbúum ríkisins kleift að höfða mál gegn framleiðendum og dreifingaraðilum þungunarrofslyfja, hvort sem um er að ræða lækna eða flutningsfyrirtæki.

Þetta munu íbúar geta gert ef þeir komast á snoðir um að verið sé að senda þungunarrofslyf til einstaklinga í Texas, jafnvel þótt þeir eigi annars enga aðkomu að málinu.

Átta ríki Bandaríkjanna heimila nú læknum að skrifa upp á og senda þungunarrofslyf til sjúklinga í öðrum ríkjum, þar sem lög banna þungunarrof í nær öllum tilvikum. Umrædd átta ríki hafa ákveðið að slá þannig skjaldborg utan um heilbrigðisstarfsmenn en með nýju lögunum í Texas er beinlínis vegið að skjaldborginni.

Samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum munu hvorki einstaklingar né fyrirtæki geta falið sig á bakvið „skjaldar-löggjöfina“ svokölluðu. En jafnvel þótt sá sem kærir málið vinni það í Texas er ekki þar með sagt að hann myndi geta sótt skaðabætur til aðila í viðkomandi ríki.

Á það mun líklega reyna fyrir dómstólum, jafnvel Hæstarétti Bandaríkjanna.

Lögin hafa verið harðlega gagnrýnd, meðal annars fyrir að skapa ótta og sundrung meðal nágranna og samborgara. 

Washington Post fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×