Innlent

Haustið komið og auknar líkur á grjóthruni, aurskriðum og aurflóðum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mynd úr safni. Nú þegar líður á haustið er varað við aukinni skriðuhættu.
Mynd úr safni. Nú þegar líður á haustið er varað við aukinni skriðuhættu. Vegagerðin

Skriðuvakt Veðurstofu Íslands varar við aukinni skriðuhættu á Austurlandi sem rekja má til töluverðrar úrkomu og haustveðurs síðustu sólarhringa. Skriðuvaktin fylgist náið með mælitækjum sínum, einkum á Seyðisfirði og Eskifirði.

Þetta kemur fram í færslu á vef Veðurstofunnar í dag. Þar segir að nú sé tekið að hausta en spáð er norðan- og norðaustlægum áttum með rigningu eða súld norðan og austanlands. Þá er spáð talsverðri úrkomu austur á fjörðum í dag og fram á morgundaginn.

„Þó mestri ákefð sé spáð á Austfjörðum í dag er úrkoma í kortunum næstu daga víðast hvar á landinu og samhliða því fylgir auknar líkur á skriðuföllum, svo sem grjóthrun, aurskriður eða aurflóð í lækjarfarvegum. Þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum getur verið hætta á skriðum og grjóthruni á vegi,“ segir meðal annars í færslu Veðurstofunnar.

Fólk er beðið að sýna aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum og horfi í kringum sig og þá er mælst til þess að fólk forðist að dvelja lengi innan og neðan vatnsfarvega. „Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.

Þá hvetur stofnunin almenning til að tilkynna um skriður og grjóthrun sem það kann að verða vart við til skriðuvaktar Veðurstofunnar, annað hvort í síma 522-6000 eða með tölvupósti á netfangið skriduvakt@vedur.is. Ekki þykir verra ef myndir fylgja tilkynningum um skriður og grjóthrun auk tíma- og staðsetningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×