Enski boltinn

Grims­by notaði ó­lög­legan leik­mann gegn United en slapp með sekt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Clarke Oduor klikkaði á sinni spyrnu í vítakeppninni í viðureign Grimsby Town og Manchester United í 2. umferð enska deildabikarsins.
Clarke Oduor klikkaði á sinni spyrnu í vítakeppninni í viðureign Grimsby Town og Manchester United í 2. umferð enska deildabikarsins. getty/Shaun Botterill

Enska D-deildarliðið Grimsby Town notaði ólöglegan leikmann í sigrinum frækna á Manchester United í deildabikarnum í síðustu viku en slapp með sekt.

Grimsby vann United í maraþonvítakeppni þar sem 26 spyrnur þurfti til að knýja fram sigurvegara. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2-2.

Clarke Oduor var eini leikmaður Grimsby sem brást bogalistin í vítakeppninni. Hann hefði raunar ekki átt að spila leikinn. Hann kom til Grimsby á láni frá Bradford City daginn áður en var skráður í leikmannahóp liðsins mínútu eftir að fresturinn til þess rann út vegna tölvuvandamála.

Grimsby greindi sjálft frá þessum mistökum og í yfirlýsingu frá ensku deildinni segir að ætlun félagsins hafi ekki verið að fara á svig við reglurnar.

Því slapp Grimsby með tuttugu þúsund punda sekt. Það jafngildir 3,3 milljónum íslenskra króna.

Þetta hefur hins vegar engin áhrif á frekari þátttöku Grimsby í deildabikarnum og liðið mætir Sheffield Wednesday í 3. umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×