Fótbolti

Suárez hrækti á þjálfara

Sindri Sverrisson skrifar
Gömlu Barcelona-stjörnurnar Luis Suárez og Sergio Busquets urðu sér báðir til skammar eftir úrslitaleikinn í Bandaríkjunum í gær.
Gömlu Barcelona-stjörnurnar Luis Suárez og Sergio Busquets urðu sér báðir til skammar eftir úrslitaleikinn í Bandaríkjunum í gær. Samsett/Skjáskot

Hinn 38 ára gamli Luis Suárez bætti skammarstriki á ferilskrá sína þegar hann sást hrækja á þjálfara úr teymi Seattle Sounders eftir 3-0 tap Inter Miami í úrslitaleik bandaríska deildabikarsins í fótbolta.

Atvikið má sjá hér að neðan en það átti sér stað skömmu eftir að flautað hafði verið til leiksloka.

Upp úr sauð eftir lokaflautið þegar Suárez greip um háls Obed Vargas, miðjumanns Seattle-liðsins, og sérstaklega eftir að Sergio Busquets sló til Mexíkóans.

En Suárez var ekki hættur því skömmu síðar átti hann í útistöðum við þjálfara Sounders. Oscar Ustari, liðsfélagi Suárez, hélt aftur af honum en það dugði þó ekki til að koma í veg fyrir að Úrúgvæinn hrækti á þjálfarann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn sigursæli Suárez kemst í fréttirnar fyrir slæma hegðun. Árið 2011, þegar hann var leikmaður Liverpool, var hann dæmdur í átta leikja bann fyrir rasísk ummæli í garð Patrice Evra hjá Manchester United.

Þá hefur hann í þrígang verið dæmdur í bann fyrir að bíta mótherja, sem leikmaður Ajax, Liverpool og úrúgvæska landsliðsins.

Eins og stjóri Seattle benti á eftir leik þá varpaði hegðun Suárez og félaga skugga á glæsta frammistöðu liðsins, þar sem þeir Osaze De Rosario, Alex Roldan og Paul Rothrock skoruðu mörkin í öruggum sigri.

„Leikmennirnir þeirra voru pirraðir og það leiddi til atvika sem ættu ekki að sjást á fótboltavelli. Ég ætla ekki að ræða það meira því það ætti ekki að vera sagan eftir þennan leik. Saga leiksins er ekki um það sem gerðist eftir leik,“ sagði Brian Schmetzer, stjóri Seattle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×