Fótbolti

„Skulduðum þeim sem mættu að gera betur“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jökull Elísabetarson gekk sáttur frá borði í þessum leik. 
Jökull Elísabetarson gekk sáttur frá borði í þessum leik.  Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, sá lið sitt koma til baka úr snúinni stöðu í leik liðsins gegn KA í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld og sýna gríðarlegan karakter. Jökull var sáttur við sigurinn en kallar eftir heilsteyptari frammistöðu frá leikmönnum sínum. 

„Við vorum mjög flatir í fyrri hálfleik og fórum vel og vandlega yfir hlutina í hálfleik. Þar ræddum við að við þyrftum að einfalda spilið okkar og vera með grunnatriði leiksins betur á hreinu. Eftir að við lentum 2-0 undir þá vaknaði liðið og við fórum að spila mun betur,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, um spilamennsku sinna manna.

„Ef við viljum fá fleiri á völlinn þá þurfum við að spila af meiri orku en við gerðum í sigrinum á móti KR og betur heilt yfir í leiknum en við gerðum í þessum leik. Við sýndum þó klærnar í þessum leik og gáfum stuðningsmönnum okkar eitthvað fyrir peninginn síðasta hálftímann eða svo,“ sagði Jökull enn fremur.

Jökull gerði þrefalda skiptingu um miðjan seinni hálfleik og færði á sama tíma Steven Caulker úr hjarta varnarinnar í framlínu Stjörnuliðsins. Sú skipting gekk fullkomlega upp hjá Jökli og fær hann prik fyrir það. 

„Við fórum í heiðarlegan 4-4-2 með tvo stóra framherja hér undir lokin og sem betur fer gekk það upp og skilaði því sem við vildum. Aftur eins og eftir leikinn á móti KR þá kalla ég samt eftir betri og heilsteyptaði frammistöðu hjá okkur í næstu leikjum,“ sagði hann.

„Við erum á góðu skriði samt og erum að ná í góð úrslit, það er mjög jákvætt. Ef við viljum samt gera okkur almennilega gildandi í toppbaráttunni, eins og stefnan er, þá verðum við að fara að ná upp betra jafnvægi í okkar leik,“ sagði Jökull um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×