Fótbolti

Rautt spjald og skellur í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikael Neville Anderson fagnaði á móti löndum sínum í dag.
Mikael Neville Anderson fagnaði á móti löndum sínum í dag. Getty/Catherine Ivill

Djurgården vann 4-0 stórsigur á tíu mönnum Norrköping á útivelli í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Íslenski landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson spilar með Djurgården og var í byrjunarliðinu í dag.

Hjá Norrköping voru þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson líka í byrjunarliðinu.

Arnór Ingvi gerði mistök í einu marki Djurgården og var tekinn af velli í hálfleik.

Djurgården kom í 2-0 í fyrri hálfleik eftir tvö mörk frá August Priske og Norrköping missti síðan Yahya Kalley af velli með rautt spjald á 44. mínútu.

Þriðja mark Djurgården skoraði Oskar Fallenius á 66. minútu og stuttu síðar fór Mikael Neville af velli enda sigurinn gulltryggður.

Djurgården átti eftir að bæta við fjórða markinu í lokin og vinna stórsigur. Djurgården er í áttunda sæti deildarinnar.

Daníel Tristan Guðjohnsen, Arnór Sigurðsson og félagar í Malmö urðu að sætta sig við 1-1 jafntefli við Degerfors á heimavelli.

Daníel Tristan spilaði allan leikinn en Arnór kom inn á sem varamaður sex mínútum fyrir leikslok. Daníel reyndi alls fimm skot í leiknum en náði ekki að skora.

Marcus Rafferty kom Degerforsí 1-0 á 10. mínútu en Adrian Skogmar jafnaði fyrir Malmö á 43. mínútu.

Degerfors fékk frábært tækifæri í seinni hálfleik en klikkuðu þá á vítaspyrnu.

Malmö missti AIK upp fyrir sig og er nú í fjórða sæti í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×