Enski boltinn

Gerir eins og Isak en vill komast til Newcastle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yoane Wissa í leik með Brentford á móti Chelsea. Hann vill komast til Newcastle.
Yoane Wissa í leik með Brentford á móti Chelsea. Hann vill komast til Newcastle. EPA/DANIEL HAMBURY

Yoane Wissa grátbiður nú Brentford um að leyfa honum að fara til Newcastle áður en leikmannglugginn lokast. Hann hefur verið orðaður við Newcastle í allt sumar.

Wissa ákvað að fara sömu leið og Alexander Isak. Hann setti inn langa færslu á samfélagsmiðilinn Instagram. Þar segir hann að Brentford hafi gefið honum loforð um það að standa ekki í vegi fyrir honum ef félagið fengi ásættanlegt tilbið.

Það er bara einn dagur í að glugginn lokist og hver er því að verða síðastur að komast í nýtt félag.

„Félagið hefur breytt afstöðu sinni og fer nú gegn því sem við höfðum talað um. Þetta hefur sett mig í mjög erfiða og pirrandi stöðu,“ skrifaði Yoane Wissa.

@yowissa

Sú ákvörðun hans að fara með heiðursmannasamkomulag eða réttara sagt brot á því, í fjölmiðla er einmitt það sem Alexander Isak gerði. Isak er að reyna að þvinga það fram félagsskipti til Liverpool.

Newcastle vill fá Wissa sem eftirmann Isak. Nái Newcastle að kaupa annan framherja þá telja menn sig vera fullvissa um það að félagið myndi selja Isak til Liverpool í beinu framhaldi.

„Að vera neyddur til að vera hér áfram mun aðeins sverta þessi fjögur frábæru ár mín hjá þessu ótrúlega félagi. Þess vegna biðla ég til eiganda Brentford og yfirmanna að efna loforð sitt og leyfa mér að fara á síðustu klukkutímunum sem leikmannaglugginn er opinn,“ skrifaði Wissa.

@yowissa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×