Fótbolti

Elías Rafn hélt aftur hreinu og liðið flaug inn í Evrópudeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson var flottur í marki Midtjylland í kvöld.
Elías Rafn Ólafsson var flottur í marki Midtjylland í kvöld. EPA/Bo Amstrup

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson fékk ekki á sig mark í tveimur umspilsleikjum danska félagsins Midtjylland um sæti í Evrópudeildinni.

Midtjylland vann 2-0 útisigur á KuPS frá Finnlandi í seinni leiknum í kvöld en danska liðið var í frábærum málum eftir 4-0 sigur í fyrri leiknum.

Midtjylland vann því 6-0 samanlagt og verður í pottinum þegar dregið verður um leikina á morgun.

Midtjylland naut góðs að því í kvöld að Finnarnir misstu mann af velli á 38. mínútu í kvöld og danska liðið var því manni fleiri í meira en fimmtíu mínútur.

Bæði mörk liðsins komu í seinni hálfleiknum en þau skoruðu Junior Brumado úr víti á 51. mínútu og Aral Simsir þremur mínútum síðar.

Elías Rafn hafði samt nóg að gera og varði fimm skot í leiknum. Hann fékk 8,6 í tölfræðieinkunn hjá Fotmob vefnum sem taldi hann hafa komið í veg fyrir 1,22 mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×