Erlent

Lög­festa bann gegn síma­notkun í skólum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sumir gagnrýnenda bannsins segja nær að kenna börnum að vera án símans, því það kunni þau hreinlega ekki.
Sumir gagnrýnenda bannsins segja nær að kenna börnum að vera án símans, því það kunni þau hreinlega ekki. Getty/Michael Nguyen

Þingmenn í Suður-Kóreu hafa samþykkt að banna notkun farsíma og annarra snjalltækja í skólum landsins. Þá er stefnt að því að skólar kenni börnum og unglingum ábyrga snjalltækjanotkun.

Flestir skólar í Suður-Kóreu hafa þegar bannað farsímanotkun en landið er meðal þeirra fyrstu til að festa símabann í lög. Kína, Ítalía og Holland hafa bannað símanotkun í öllum skólum en Frakkland og Finnland bannað notkun símtækja í skólum fyrir yngri nemendur.

Samkvæmt rannsókn sem stjórnvöld í Suður-Kóreu létu gera í fyrra er fjórðungur landsmanna of mikið í símanum en hlutfallið er 43 prósent meðal ungmenna á aldrinum tíu til nítján ára.

Yfir þriðjungur táninga segist eiga erfitt með að takmarka þann tíma sem þeir verja á samfélagsmiðlum og foreldrar óttast að á meðan séu þeir að fara á mis við aðra mikilvæga þætti, eins og að eignast vini og taka þátt í frístundum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×