Golf

Fluga hjálpaði kúlunni ofan í holuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy Fleetwood gat ekki annað en brosað eftir aðstoðina frá flugunni.
Tommy Fleetwood gat ekki annað en brosað eftir aðstoðina frá flugunni. Getty/Kevin C. Cox/NurPhoto

Enski kylfingurinn Tommy Fleetwood fékk óvenjulega aðstoð á BMW Championship golfmótinu um helgina. 

Heppnin hefur ekki verið með Fleetwood á þessu ári. Hann hefur oft verið við toppinn á mótum og spilað mjög vel en náði ekki að vinna eitt einasta mót á mótaröðinni.

Síðasti sigur hans á móti kom í janúar 2024 en síðan hefur vantað herslumuninn á svo mörgum mótum.

Kannski fer lukkan nú að snúast með honum og fugl um helgina gefur kannski fyrirheit um það að heppnin sé aftur með honum í liði.

Fleetwood átti þá gott pútt en kúlan stöðvaðist engu að síður við holubrúnina. Var óheppnin enn að elta hann. Nei ekki alveg.

Fleetwood byrjaði að ganga í átt að holunni þegar skordýr, einhverskonar fluga, settist á kúluna. Þetta var nóg til að kúlan snerist aðeins, fór af stað og datt ofan í holu.

Fleetwood gat skiljanlega ekki annað en brosað og púttið var það langt frá að hann var enn innan tímamarka til að komast að kúlunni til að ýta henni sjálfur ofan í holuna. Hann sparaði sér dýrmætt högg.

Þetta högg hjálpaði honum að ná fimmta sætinu sem þýddi verðlaunafé upp á 730 þúsund Bandaríkjadali eða níutíu milljónir. Fimmta sætið á þessu móti hjálpaði honum einnig að tryggja sér 1,45 milljón dollara bónus með því að ná fimmta sæti á FedEx listanum.  Sá bónus er upp á 180 milljónir í íslenskum krónum. 

Það má sjá þessa hjálp frá flugunni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×