Enski boltinn

Frimpong strax úr leik hjá Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Jeremie Frimpong á við meiðsli að stríða.
Jeremie Frimpong á við meiðsli að stríða. Getty/Robbie Jay Barratt

Hollenski bakvörðurinn Jeremie Frimpong náði aðeins að spila einn leik með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta áður en hann meiddist. Hann missir af næstu leikjum liðsins.

Frimpong var í byrjunarliði Liverpool í 4-2 sigrinum gegn Bournemouth síðasta föstudag, eftir að hafa sömuleiðis spilað gegn Crystal Palace í leiknum um Samfélagsskjöldinn og skorað mark.

Hann mun hins vegar ekki spila meira með Liverpool fyrr en eftir landsleikjahléið í september, eftir að hafa tognað í læri í leiknum við Bournemouth.

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti þetta í dag og var ánægður með ráðleggingar sjúkrateymisins um að taka Frimpong af velli á 59. mínútu.

Frimpong missir af ansi mikilvægum leikjum því Liverpool mætir Newcastle á mánudagskvöld og á svo sannkallaðan stórleik við Arsenal sunnudaginn eftir það.

„Sjúkrateymið hafði hárrétt fyrir sér þegar það sagði mér að taka Jeremie af velli því hann verður frá keppni fram yfir landsleikjahléið.

Ég held ég hafi verið gagnrýndur fyrir að taka hann af velli en sjúkrateymið taldi hann glíma við vandamál í lærinu. Góð ákvörðun að taka hann af velli því annars hefði hann mögulega verið lengur frá keppni. Við búumst við honum aftur eftir landsleikjahléið,“ sagði Slot.

Conor Bradley hefur einnig verið meiddur en Slot sagði hann hafa snúið aftur til æfinga með liðinu í dag. Joe Gomez er einnig kostur í stöðu hægri bakvarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×