Fótbolti

Mark­vörður Fluminense tók heims­metið af Peter Shilton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio fagnar marki hjá Fluminense í leik þar sem hann hélt hreinu, fagnaði sigri og sló heimsmet.
Fabio fagnar marki hjá Fluminense í leik þar sem hann hélt hreinu, fagnaði sigri og sló heimsmet. EPA/Antonio Lacerda

Brasilíski markvörðurinn Fábio er nú sá sem hefur spilað flesta opinbera fótboltaleiki á ferlinum.

Fábio spilar með Fluminense í Brasilíu og félagið sagði frá því að hann hafi í gærkvöldi spilað sinn 1391. leik á ferlinum.

Heimsmetabók Guinness var með heimsmetið skráð á enska markvörðinn Peter Shilton. Shilton var skráður með 1390 leiki en Shilton taldi þó sjálfur að hann hefði aðeins spilað 1387 leiki.

Fluminense fór eftir skráningu Heimsmetabók Guinness og taldi sinn mann hafa slegið heimsmetið í 2-0 sigri á América de Cali á Maracaná leikvanginum í gær.

Leikurinn var í sextán liða úrslitum Suðurameríkukeppninnar, Copa Sudamericana, sem er eins og Evrópudeildin eða næstefsta alþjóðlega keppnin hjá félögunum í Suður Ameríku.

Fábio spilaði leikinn með sérstaka merkingu á búningi sínum og fékk síðan heimsmetsplatta afhentan eftir leikinn.

Fábio heldur upp á 45 ára afmælið sitt 30. september næstkomandi. Hann hefur nokkrum sinnum verið valinn í brasilíska landsliðshópinn en aldrei spilað landsleik. Hann hefur unnið 27 titla á ferlinum þar á meðal stærstu félagskeppninnar í Suður-Ameríku.

Fábio var með þegar Fluminense komst í undanúrslit heimsmeistarakeppni félagsliða í sumar.

Hann hefur spilað 976 leiki fyrir Cruzeiro (2005-2021), 235 leiki fyrir Fluminense (2022-2025), 150 leiki Vasco (2000-2004) og 30 leiki fyrir União Bandeirante (1997).

Næstir á eftir Fábio og Shilton á listanum yfir flesta opinbera leiki á ferlinum eru Cristiano Ronaldo (1287 leikir), Paul Bastock (1284) og Rogério Ceni (1226). Allir eru markverðir nema Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×