Enski boltinn

Hent út úr Tottenham liðinu fyrir ó­stund­vísi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yves Bissouma fékk óvænt ekki að fara með Tottenham liðinu til Ítalíu.
Yves Bissouma fékk óvænt ekki að fara með Tottenham liðinu til Ítalíu. EPA/VINCE MIGNOTT

Yves Bissouma verður ekki með Tottenham í fyrsta stórleik tímabilsins í kvöld þegar liðið mætir Paris Saint-Germain í leiknum um Ofurbikar Evrópu.

Í kvöld mætast í beinni á Sýn Sport nefnilega liðin sem unnu Meistaradeildina og Evrópudeildina síðasta vor í árlegum leik sem að þessu sinni fer fram á Stadio Friuli í Udine á Ítalíu.

Þetta verður fyrsti keppnisleikur Tottenham undir stjórn nýja knattspyrnustjórans Thomas Frank og Frank er þegar byrjaður að taka á agamálum innan liðsins. 

Frank staðfesti það á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann hefði skilið Bissouma eftir heima. 

Frank sagði ástæðuna vera þá að Bissouma hafi mætt mörgum sinnum of seint í sumar. 

Bissouma er 28 ára miðjumaður sem spilaði 44 leiki með Tottenham í öllum keppnum á síðustu leiktíð og spilaði allar níutíu mínúturnar í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á móti Manchester United í vor.

„Bissouma ferðaðist ekki með okkur vegna agabrots,“ sagði Thomas Frank. „Hann er búinn að mæta mörgum sinnum of seint og í þetta skiptið var það bara einu skipti of mikið,“ sagði Frank.

„Þú þarft að sýna leikmönnum þínum heilmikla ást en það eru líka kröfur og það þurfa að vera afleiðingar. Að þessu sinni er þetta afleiðingin,“ sagði Frank.

„Ég mun fylgja þessu eftir þegar ég kem heim. Ég ætla að setja þetta til hliðar núna því það er tiltölulega mikilvægur leikur annað kvöld (Í kvöld),“ sagði Frank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×