Fótbolti

„Al­gjör­lega ó­á­sættan­legt“ og stuðnings­mennirnir verða settir í bann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ole Palma og stjórnarmenn Bröndby vinna í því að bera kennsl á sökudólgana.
Ole Palma og stjórnarmenn Bröndby vinna í því að bera kennsl á sökudólgana.

Hæstráðendur hjá Bröndby eru að vinna í því að bera kennsl á slagsmálahundana sem sóttu leik Víkings og Bröndby í gærkvöldi.

Stuðningsmenn Bröndby létu öllum illum látum eftir leikinn í gær, veltu kamri og lentu í slagsmálum sem lögreglan þurfti að leysa úr með piparúða. Þeir létu sér það ekki nægja og leituðu uppi slagsmál á Ölveri, þar sem stuðningsmenn Víkings voru.

Í skriflegu svari til danska miðilsins Bold segir framkvæmdastjóri Bröndby að félagið sé að vinna í málinu og stuðningsmennirnir sem efndu til slagsmála verða settir í bann. 

„Í tengslum við leikinn í Reykjavík í gærkvöldi voru skemmdarverk unnin og ólæti brutust hjá nokkrum stuðningsmönnum. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óásættanlegt. Við áttum okkur á því að tapi fylgja tilfinningar, en þær eiga ekki að stigmagnast með slíkum hætti.

Við erum að vinna í því að fá heildarmynd af atburðarásinni í tengslum við leikinn. Við erum með myndbönd til skoðunar og munum reyna að bera kennsl á sökudólgana, sem verða síðan settir í bann“ segir Ole Palma, framkvæmdastjóri Bröndby, í skriflegu svari til Bold. 

Hann minnist ekki á hvernig öryggismálum verður háttað í seinni leik liðanna í næstu viku en forsvarsmenn Víkinga staðfestu í samtali við fréttastofu að öryggisgæslan yrði aukin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×