Enski boltinn

Bayern stað­festir kaupin á Diaz: „Lucho ist hier“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Diaz sést hér kominn í búning Bayern München.
Luis Diaz sést hér kominn í búning Bayern München. fcbayern.com

Þýsku meistararnir í Bayern München hafa staðfest kaupin á kólumbíska framherjanum Luis Diaz.

Bæjarar borga Liverpool 65,6 milljónir punda fyrir þennan 28 ára gamla leikmann. Þeir staðfestu kaupin með mynd af Diaz í búningi Bayern og með orðunum: „Lucho ist hier“ eða „Lucho er mættur“. Lucho er gælunafn Luis Diaz.

Diaz hefur verið hjá Liverpool í þrjú og hálft ár og átti mikinn þátt í því að liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.

Kólumbíumaðurinn hafði yfirgefið æfingaferð Liverpool til Asíu og kom til Þýskalands í gær. Diaz stóðst læknisskoðun og hefur nú gengið frá samningi til ársins 2029.

„Ég er ánægður. Það skiptir mig miklu máli að verða orðinn leikmaður FC Bayern sem er eitt af stærstu félögum heims,“ segir Diaz í viðtali á miðlum Bayern.

„Ég vil hjálpa mínu nýja liði með mínum stíl af fótbolta og með mínum persónuleika. Mitt markmið er að vinna alla titla í boði og vinna að því markvisst á hverjum degi með mínu liði,“ segir Diaz.

Liverpool keypti Diaz frá Porto fyrir 37 milljónir punda í janúar 2022 og hann skoraði 41 mörk í 148 leikjum fyrir félagið. Liverpool græddi því næstum því þrjátíu milljónir punda á sölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×