Enski boltinn

Bræðurnir heiðraðir í fyrsta æfinga­leik Liverpool

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fjöldi fólks hefur minnst bræðranna fyrir utan Anfield, heimavöll Liverpool.
Fjöldi fólks hefur minnst bræðranna fyrir utan Anfield, heimavöll Liverpool. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool spilar á útivelli gegn Preston North End næsta sunnudag, fyrsta æfingaleik undirbúningstímabilsins og fyrsta leikinn eftir óvænt andlát Diogo Jota og bróður hans, André Silva. Bræðurnir verða heiðraðir af báðum liðum fyrir leik og á meðan honum stendur.

Diogo Jota, fyrrum leikmaður Liverpool, og bróðir hans André Silva létust í bílslysi á Spáni aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Mikið hefur eflaust reynt á leikmenn liðsins, sem fóru flestir í útför bræðranna síðustu helgi.

Leikmenn Liverpool komu síðan saman til æfinga á þriðjudag en upprunalega áttu æfingar að hefjast síðasta föstudag, degi eftir andlát Portúgalans.

Til skoðunar var að aflýsa fyrsta leik undirbúningstímabilsins í ljósi áfallsins en eftir viðræður Preston og Liverpool var ákveðið að leikurinn færi fram.

Nú hefur Liverpool tilkynnt að minningarathöfn verði haldin áður en leikurinn á Deepdale leikvanginum hefst.

Þar mun heimaliðið leggja blómakrans við stúku stuðningsmanna Liverpool. Þjóðlag Liverpool, You‘ll Never Walk Alone, verður síðan spilað áður en mínútuþögn verður haldin til minningar um bræðurna.

Myndir og myndbönd af þeim verða spiluð á stórum skjá á meðan. Preston hefur einnig útbúið óhefðbundna leikskrá sem inniheldur falleg minningarorð um bræðurna.

Bæði lið munu svo bera sorgarbönd á handleggnum á meðan leiknum stendur.

Enn streyma þúsundir manna að Anfield, heimavelli Liverpool, á hverjum degi til að votta virðingu sína við bræðurna sem féllu frá.

Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool, var einn þeirra sem lagði blómakrans á leiðið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×