Fulltrúar hagsmuna hótelskipaútgerða og tengdra aðila hafa stigið fram opinberlega undanfarið og gagnrýnt innheimtu gistinátta- og innviðagjalda á hótelskip sem sigla með ferðamenn meðfram Íslandsströndum. Ef marka má frétt í Bæjarins besta í júní hefur þeim tekist að ná eyrum stjórnvalda því atvinnumálaráðherra segir þar að þörf sé á að endurskoða innviðagjaldið í tengslum við frágang fjármálaáætlunar á yfirstandandi þingi.
Af þessu tilefni er rétt að minna á að skemmtiferðaskipin eru í raun fljótandi aflandshótel sem hafa fram á 2024 ekki greitt neina skatta á Íslandi og því notið mikils forskots í samkeppni við hótel og gististaði í landi.
Um áramót var í samræmi við nýsamþykkta ferðamálastefnu Alþingis lagt sérstakt innviðagjald, 2500 kr. á farþega, á stóru skipin. Þá hafa fulltrúar aflandsskipanna sérstaklega vísað til skatta á svokölluð leiðangursskip, sem dvelja við Ísland yfir sumarið og sigla á milli hafna hring eftir hring í kringum landið. Í þeim efnum er mikilvægt að hafa í huga að þau skip greiða aðeins gistináttaskatt, ekki innviðagjald, og að sá skattur var lækkaður um síðustu áramót úr 1000 kr. í 800 kr. á káetu. Á sama tíma var gistináttaskattur á hótel hækkaður úr 600 kr. í 800 kr. á herbergi.
Skemmtiferðaskipin eru í raun fljótandi aflandshótel sem hafa fram á 2024 ekki greitt neina skatta á Íslandi og því notið mikils forskots í samkeppni við hótel og gististaði í landi.
Í dag greiða því leiðangursskip sama gistináttaskatt á hvert herbergi og hótelin og er það eini skatturinn sem þau skip greiða til íslenska ríkisins á meðan hótelin greiða öll opinber gjöld og skatta líkt og önnur fyrirtæki á Íslandi. Ef horft er til allra skatta og gjalda greiða hótel á bilinu 10 - 20 þúsund kr. á hvert herbergi í skatta og skyldur fyrir hverja nótt.
Rekstur hótela og veitingahúsa hefur verið erfiður undanfarin ár. Í ljósi þess og ofangreinds mætti því ætla að ýmis brýnni verkefni á sviði ferðaþjónustu biði atvinnumálaráðherra en að lækka gjöld á aflandshótel sem eru lítil í samanburði við innlenda keppinauta þeirra.
Höfundur er formaður Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu.