Neytendur

Kaffi heldur á­fram að hækka í verði

Lovísa Arnardóttir skrifar
ASÍ greinir breytingar í verðlagi reglulega.
ASÍ greinir breytingar í verðlagi reglulega. Vísir/Anton Brink

Dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins, sem mælir breytingar á mikilvægustu daglegu innkaupum heimilanna í matvöruverslunum, hækkaði um 0,31 prósent í júní miðað við maí. Þetta er talsvert minni hækkun en mánuðina á undan, þar sem hækkunin hefur verið yfir hálfu prósenti á mánuði. Frá þessu er greint í tilkynningu frá verðlagseftirliti ASÍ.

Verðlag Kjörbúðarinnar hækkaði samkvæmt tilkynningunni mest í júní, eða um 0,85 prósent. í tilkynningu segir að þetta virðist vera lokahnykkur mikilla hækkana í þeirri verslun frá áramótum, en samkvæmt mælingu júlímánaðar er hækkunin nú 0,1 prósent milli mánaða.

Kaffi heldur áfram að hækka hratt í öllum flokkum nema kaffihylkjum. Verð á möluðu kaffi hefur hækkað að meðaltali um 14 prósent frá janúarmánuði í Bónus, Krónunni og Prís. Baunir hafa hækkað að meðaltali um 22 prósent í verði, um næstum fjórðung.

Dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hefur verið nokkru undir verðbólgumælingum Hagstofunnar það sem af er ári. Þetta skýrist að hluta af því að verðlagseftirlitið hefur ekki vigtað stakar vörur innan flokka, enda sölumagn hverrar vöru fyrir sig ekki opinbert. Engu að síður má skoða stór íslensk vörumerki og athuga hvort hækkanir þeirra hafi verið frábrugðnar meðalhækkunum í stórum matvöruverslunum.

Svo virðist sannarlega vera. Stór íslensk vörumerki hafa hækkað um 7 prósent á meðan aðrar vörur hafa hækkað um 2 prósent, þrefalt hraðar, frá undirritun kjarasamninga. Hækkanir á þessum söluháu vörumerkjum hafa því haft meiri áhrif á veskið en vísitalan gefur til kynna. Vörumerkin sem voru skoðuð eru Gæðabakstur, MS, Kristall, llab, Sómi, SS, Ali, Myllan, Nói Síríus, 1944 Stjörnugrís og Íslandsnaut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×