Innlent

Fagnar „hug­rökkum hetjum“ Banda­ríkja­hers en skrifar um þarmaflóruna á sau­tjánda júní

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Björn Skúlason, eiginmaður forseta Íslands, rekur heilsufyrirtækið Just Björn.
Björn Skúlason, eiginmaður forseta Íslands, rekur heilsufyrirtækið Just Björn. Vísir/Samsett

Björn Skúlason, eiginmaður Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, óskaði á föstudag Bandaríkjamönnum til hamingju þjóðhátíðardag sinn og sagði að fagna skyldi frelsinu „okkar.“ Á sautjánda júní birti hann fræðifærslu um meltingargerla.

Björn Skúlason rekur fyrirtæki sem heitir Just Björn og sýslar með fæðubótarefni og heilsuvörur unnar með kollageni.

Hugrakkar hetjur sem börðust fyrir frelsi „okkar“

Í fyrradag, á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, birtist færsla á reikning fyrirtækisins á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann óskar Bandaríkjamönnum til hamingju með ansi athyglisverðu orðalagi, miðað við það að hann sé maki forseta Íslands.

„Gleðilegan þjóðhátíðardag! Í dag fögnum við frelsi okkar og hugrökku hetjunum sem börðust fyrir því. Söfnumst saman vinir og fjölskylda, grillum, horfum á flugelda og segjum sögur af samheldni og von,“ stendur í færslunni.

Í umræddri færslu hvetur hann fylgjendur sína til að fagna Bandaríkjaher.Skjáskot

Á sautjánda júní birtist ein færsla á reikningnum. Hún lýtur að næringarfræði og er henni ætlað að fræða fylgjendur um muninn á svokölluðum forlífsgerlum og meltingargerlum.

„Þegar kemur að þarmaheilsu hefurðu eflaust heyrt talað um forlífsgerla og meltingargerla. Þeir kunna að hljóma líkir og báðir stuðla að heilbrigðri þarmaflóru en þeir sinna ólíkum hlutverkum í meltingarkerfi okkar,“ segir í færslunni sem er ekki beint þjóðlegur fróðleikur.

Fyrirtækið skráð í Bandaríkjunum

Eftir því sem blaðamaður kemst næst er félagið Just Björn skráð í Delaware-ríki í austanverðum Bandaríkjunum sem er algengt fyrir fyrirtæki af sama toga og Björns sem eru rekin úr New York-ríki. Fyrirtækið er skráð sem svokallað public benefit corporation eða almannahagsmunafyrirtæki. Slík fyrirtæki skuldbinda sig til að taka tillit til hagsmuna hluthafa og samfélagsins í heild og gera grein fyrir samfélagslegum áhrifum sínum opinberlega.

Birni Skúlasyni er umhugað um þarmaflóruna.Skjáskot

Þó svo að fyrirtækið sé skráð í Bandaríkjunum er það óneitanlega rekið af Birni Skúlasyni af Bessastöðum og á eigin reikningi á samfélagsmiðlum titlar Björn sig fyrst og fremst stofnanda og forstjóra Just Björn. Delaware-ríki er ekki skylt að gefa upp starfsmannaskrár opinberlega þannig að ekki er hægt að sjá hvort samfélagsmiðlastjóri sé á mála hjá fyrirtækinu en Björn Skúlason talar ítrekað um sig í fyrstu persónu í færslum á reikningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×