Handbolti

Tæp­lega þriggja ára­tuga ferli Alexanders lokið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexander Petersson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna frægu.
Alexander Petersson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna frægu. Vísir/Dúi

Alexander Petersson, sem á að baki einn lengsta handboltaferil sem sögur fara af, er hættur.

Bæði RÚV og Handbolti.is hafa greint frá því að skórnir séu komnir á hilluna hjá Alexander.

Alexander, sem verður 45 ára gamall á morgun, miðvikudag, á að baki um 27 ára langan feril.

Hann hóf atvinnumannaferil sinn árið 2003 þegar hann gekk til liðs við þýska liðið HSG Düsseldorf. Alls lék Alexander sem atvinnumaður í 19 ár, eða til ársins 2022, og er hann enn í dag einn af leikjahæstu leikmönnum þýsku deildarinnar, bestu deildar heims.

Eftir að atvinnumannaferli Alexanders lauk tók hann sér eins árs hlé og gerðu flestir ráð fyrir því að skórnir væru komnir á hilluna.

Flestum að óvörum samdi hann hins vegar við Val sumarið 2023 og varð Evrópubikarmeistari með liðinu árið eftir.

Þá lék Alexander með íslenska landsliðinu í alls 17 ár, en hann á að baki 186 landsleiki þar sem hann skoraði 725 mörk. Hann var einnig kjörinn íþróttamaður ársins árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×