Fótbolti

Markaregn og þrenna er ÍA vann botnslaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elizabeth Bueckers skoraði þrennu fyrir ÍA í kvöld.
Elizabeth Bueckers skoraði þrennu fyrir ÍA í kvöld. ÍA

ÍA vann mikilvægan 4-3 sigur er liðið tók á móti Fylki í botnslag Lengjudeildar kvenna í kvöld.

Fyrir leikinn sátu liðin í áttunda og níunda sæti, bæði með sex stig, þremur stigum meira en botnlið Aftureldingar.

Heimakonur í ÍA byrjuðu leikinn af miklum krafti og mörk frá Elizabeth Bueckers og Ernu Björt Elíasdóttur komu liðinu í 2-0 eftir tæplega hálftíma leik.

Kolfinna Baldursdóttir minnkaði hins vegar metin fyrir Fylki stuttu fyrir hlé og staðan því 2-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Elizabeth Bueckers var þó hvergi nærri hætt í liði heimakvenna. Hún bætti tveimur mörkum við með fjögurra mínútna millibili snemma í seinni hálfleik og fullkomnaði þar með þrennuna um leið og hún kom ÍA í 4-1.

Gestirnir gáfust ekki upp og Hildur Anna Brynjarsdóttir og Marija Radojicic skoruðu sitt marki hvor áður en yfir lauk.

Nær komust Fylkiskonur þó ekki og niðurstaðan varð mikilvægur 4-3 sigur ÍA, sem nú situr í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×