Samningur hans við Southampton er að renna út um mánaðamótin og Lallana mun ekki leita sér að nýju liði. Hann tilkynnti ákvörðunina á samfélagsmiðlum í morgun og sagðist „fullur af þakklæti og stolti.“
Lallana er uppalinn hjá Southampton, sem bjó til marga mjög góða leikmenn á svipuðu aldursbili. Í akademíunni þar spilaði hann meðal annars með Gareth Bale, Theo Walcott, Nathan Dyer og Leon Best.
Lallana þreytti frumraunina fyrir uppeldisfélagið árið 2007, var síðan sendur á lán til Bournemouth seinni hluta tímabils en átti fast sæti í liðinu eftir það. Árið 2012 var hann valinn fyrirliði eftir að hafa hjálpað Southampton að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir sjö ára fjarveru.

Tveimur árum síðar var hann seldur til Liverpool, þar sem hann var næstu sjö ár. Á tíma sínum varð hann Englandsmeistari og vann Meistaradeildina, auk tveggja bikartitla.
Þaðan lá leiðin til Brighton og síðan aftur heim til Southampton, þar sem Lallana spilaði sína síðustu leiki á liðnu tímabili.
Lallana var einnig hluti af enska landsliðinu um árabil, spilaði alls 34 leiki og fór með landsliðinu á HM 2014 og EM 2016.