Gunnlaugur fagnaði sigri í báðum leikjum sínum í fjórmenningi á degi tvö. Á öðrum keppnisdegi voru leiknar 36 holur. Báðir hringirnir eru leiknir í fjórmenning, þar sem kylfingar leika einum bolta og skiptast á að slá.
Þann fyrri vann hann með hinum norska Michael Alexander Mjaaset. Þeir mættu þar sterkasta pari Bandaríkjanna í Jackson Koivun og Carson Bacha. Koivun er annar á heimslistanum og Bacha situr í því nítjánda. Gunnlaugur og Michael sigruðu bandaríska teymið eftir ótrúlegar seinni níu holur.
Í seinni umferð dagsins spilaði Gunnlaugur með hinni öflugu Maria José Marin frá Kólumbíu en hún situr í fimmta sæti á heimslista kvenna. Þau mættu þar Bandaríkjamönnunum Austin Duncan og Kendall Todd.
Gunnaugur og Maria voru yfir allan tímann og kláruðu leikinn á sautjándu holunni þegar þau voru komin þremur holum yfir.
Gunnaugur hjálpaði því alþjóðlega liðinu að ná í tvö mikilvæg stig í baráttunni. Það má lesa meira um þetta á heimasíðu golfsambandsins.
Staðan fyrir lokadaginn er 20-16 fyrir alþjóðlega liðið. Á síðasta keppnisdegi er leikinn tvímenningur.
Gunnlaugur, sem er fæddur 2005, stundar nám við LSU í Louisiana og hefur leikið frábærlega á sínu fyrsta ári í háskólagolfinu.