Aðalmarkmaður Brentford á síðasta tímabili, Mark Flekken, er á leið til Bayer Leverkusen í Þýskalandi fyrir um átta milljónir punda.
Íslendingar bundu vonir við að annar markmaður yrði ekki sóttur í hans stað og Hákon tæki við sem aðalmarkmaður eftir að hafa setið á bekknum nánast allt síðasta tímabil.
Hákon mun hins vegar þurfa að berjast við Caoimhin Kelleher um stöðuna, eins og Vísir greindi frá fyrir sex dögum þegar orðrómar fóru af stað um komu Kelleher til Brentford.
Nú hefur félag hans, Liverpool, samþykkt átján milljón punda boð Brentford. Sky Sports greinir frá því að Mark Flekken gangist undir læknisskoðun hjá Bayer Leverkusen í dag og gengið verði formlega frá kaupum Brentford á Kelleher þegar sú sala gengur í gegn.
Hákon Rafn var í hlutverki varamarkmanns á síðasta tímabili og Kelleher er væntanlega hugsaður sem verðandi aðalmarkmaður, en mun auðvitað þurfa að berjast um stöðuna.
Á síðasta tímabili lék Hákon tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni og tvo leiki í deildabikarnum. Hann er í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman á morgun fyrir æfingaleiki gegn Skotlandi og Norður-Írlandi.