Virtir miðlar á borð við BBC og The Athletic fjalla um þetta í dag og ljóst að hinn þrítugi Fernandes, sem er með samning við United til 2027 með möguleika á árs framlengingu, virðist tilbúinn að hugsa sér til hreyfings.
Fulltrúar Portúgalans munu hafa hitt forráðamenn Al-Hilal á undanförnum dögum til nánari viðræðna, á meðan United-liðið er í ferðalagi sínu í Asíu. Það er líka spurning hvort Fernandes hafi heyrt í vini sínum Jóhanni Berg Guðmundssyni og spurt út í tilveruna í Sádi-Arabíu.
Samkvæmt BBC er Manchester United „afslappað“ yfir stöðunni og hugsanlega tilbúið að missa Fernandes, jafnvel þó að hann hafi verið valinn leikmaður ársins fjögur ár í röð og mögulega séð til þess að liðið lenti ekki hreinlega í fallhættu í vetur. Ruben Amorim, sem lýst hafi yfir áhuga á að halda Fernandes, viti vel að með því að selja Fernandes fyrir 80 milljónir punda opnist möguleikar á að endurnýja leikmannahópinn almennilega.
Bruno Fernandes’ Manchester United career to date by numbers:
— SimplyUtd (@SimplyUtd) May 30, 2025
290 games
702 chances created
182 goals involvements
98 goals
84 assists
4 POTS awards
2 trophies
If this is the end, thank you. 🫡 pic.twitter.com/bG5ddo84DU
Amorim var spurður út í stöðuna á Fernandes, í Asíuferð United, og svaraði: „Við tölum oft um þetta. Þið sjáið það alveg á frammistöðunni. Þið sjáið það á leiðtogahæfninni. Þið sjáið ástríðuna sem hann hefur fyrir leiknum. Á erfiðum augnablikum er Bruno alltaf sá sem axlar ábyrgð. Hann ætti líka gera það því hann er fyrirliðinn.“
Þó að Fernandes sé einn launahæsti leikmaður United þá er talið að hann myndi tvöfalda laun sín með því að samþykkja að fara til Sádi-Arabíu. Forráðamenn Al-Hilal eru staðráðnir í að sækja stórstjörnu áður en HM félagsliða hefst, þar sem liðið mætir Real Madrid, Red Bull Salzburg og Pachuca frá Mexíkó í riðlakeppninni.
Fernandes skoraði 19 mörk í öllum keppnum fyrir United í vetur og hefur alls skorað 98 mörk í 290 leikjum síðan United keypti hann frá Sporting Lissabon í janúar 2020, fyrir 47 milljónir punda.