Fótbolti

Eigin­konurnar fljúga frítt á meðan starfs­mennirnir sitja eftir heima

Smári Jökull Jónsson skrifar
Katie Goodland er eiginkona Harry Kane en hér sjást þau fagna meistaratitli Bayern.  Bayern Munchen ætlar að bjóða Goodland og öðrum eiginkonum leikmanna Bayern til Bandaríkjanna.
Katie Goodland er eiginkona Harry Kane en hér sjást þau fagna meistaratitli Bayern. Bayern Munchen ætlar að bjóða Goodland og öðrum eiginkonum leikmanna Bayern til Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Bayern Munchen verður á meðal þeirra liða sem keppa á heimsmeistarakeppni félagsliða sem hefst þann 14. júní í Bandaríkjunum. Ósætti innan félagsins gæti þó sett strik í reikninginn í undirbúningnum.

Bayern Munchen tryggði sér á dögunum þýska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir erfitt tímabil í fyrra. Liðið er á leið til Bandaríkjanna í júní þar sem Heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram en mótið verður það stærsta til þessa og munu 32 lið taka þátt.

Nú heyrast hins vegar fregnir af óánægju innan þýska félagsins. Bayern á í fjárhagsvandræðum og þarf að skera niður. Af þeim sökum þurfa ýmsir starfsmenn, sem að öllu jöfnu myndu fylgja liðinu vestur um haf, að vera eftir heima.

Þessu myndu eflaust felstir sýna skilning ef ekki væri fyrir þá staðreynd að félagið mun greiða allan ferðakostnað eiginkvenna leikmanna liðsins sem verða að sjálfsögðu á staðnum þegar mótið fer fram.

Meðallaun leikmanna Bayern eru rúmlega 180.000 evrur á viku sem gera rúmlega 26 milljónir íslenskra króna. Það ætti því að vera auðvelt fyrir leikmennina að taka sjálfir á sig kostnaðinn við ferðalag eiginkvennanna.

Ákvörðunin hefur valdið reiði innan félagsins en meðal þeirra sem þurfa að gera sér að góðu að sjá leikina í sjónvarpinu eru millistjórnendur og starfsmenn á leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×