Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var rekinn upp í stúku í leik Víkings og ÍA á laugardaginn og fær fyrir vikið eins leiks bann auk þess sem Skagamenn þurfa að greiða 20.000 krónu sekt. Hann verður því ekki á hliðarlínunni þegar ÍA mætir Blikum í Kópavogi á fimmtudag.
Þar verður fyrirliði Breiðabliks, Höskuldur Gunnlaugsson, einnig fjarverandi en hann er kominn með fjögur gul spjöld í Bestu deildinni sem þýðir leikbann. Af sömu ástæðum missir Arnór Ingi Kristinsson leikmaður ÍBV af mikilvægum leik Eyjamanna gegn FH og Kjartan Kjartansson verður ekki með Stjörnunni gegn KR.
Þá var Finnur Tómas Pálmason rekinn af velli í leik KR og Fram fyrir að ýta Guðmundi Magnússyni og hann fær sömuleiðis eins leiks bann.
Í úrskurði aganefndar kemur einnig fram að Baldvin Már Borgarson þjálfari Árbæs sé dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir ofsalega framkomu og atvik eftir leik liðsins gegn Magna. Lið Árbæs fær auk þess samtals 85.000 króna sekt vegna brottreksturs Baldvins Más og fjölda refsistiga í leiknum. Leiknum lauk með 3-2 sigri Magna.