Fótbolti

Sæ­var Atli orðinn leik­maður Brann

Aron Guðmundsson skrifar
Sævar Atli er orðinn leikmaður Brann
Sævar Atli er orðinn leikmaður Brann Mynd: BRANN

Sævar Atli Magnússon er genginn í raðir norska úrvalsdeildarfélagsins Brann og mun þar spila undir stjórn Freys Alexanderssonar sem hann þekkir frá fyrri tíð hjá Lyngby í Danmörku.

Brann greindi frá félagsskiptunum rétt í þessu og hefur Sævar skrifað undir fjögurra ára samning við félagið. Hann kemur á frjálsri sölu til félagsins eftir að samningur hans við Lyngby rann út eftir yfirstandandi tímabil í Danmörku.

„Brann var alltaf fyrsti kostur í mínum huga eftir að ég heyrði af áhuga félagsins. Ég hef heyrt góða hluti bæði um borgina sem og félagið,“ lætur Sævar Atli hafa eftir sér í tilkynningu Brann.

Hópur fjölmiðla­manna var mættur á flug­völlinn í Bergen í morgun þegar að Sævar Atli Magnússon lenti þar ásamt um­boðs­manni sínum í viðræður. Samtalið milli hans og félagsins virðist hafa gengið vel því nú hefur Sævar skrifað undir samning.

Hann mun þó ekki geta spilað með Brann fyrr en eftir 12.júlí þegar að félagsskiptaglugginn í Noregi opnar á nýjan leik.

Sævar Atli er upp­alinn hjá Leikni Reykja­vík en eftir að hafa tekið skrefið út í at­vinnu­mennskuna til Lyng­by spilaði hann 126 leiki fyrir félagið, skoraði tuttugu mörk og gaf 15 stoð­sendingar.

Hann átti þátt í því að koma liðinu upp í dönsku úr­vals­deildina á sínum tíma, spilaði 62 leiki þar en á nýaf­stöðnu tíma­bili féll Lyng­by aftur niður í næ­stefstu deild.

Sævar Atli á að baki lands­leiki fyrir öll yngri lands­lið Ís­lands. Þá hefur hann spilað fimm A-lands­leiki.

Brann er á sínu fyrsta tíma­bili undir stjórn Freys og hefur byrjað vel. Sem stendur er liðið í 2.sæti norsku úr­vals­deildarinnar með tuttugu stig eftir níu leiki, þremur stigum á eftir topp­liði Viking en á leik til góða. Með liðinu spilar fyrir Ís­lendingurinn Eggert Aron Guðmundsson.

Viðtal við Sævar Atla, nýjan leikmann Brann má sjá hér fyrir neðan: 


Tengdar fréttir

Sótt að Sævari Atla á flug­vellinum í Bergen

Hópur fjölmiðla­manna var mættur á flug­völlinn í Bergen í morgun þegar að knatt­spyrnu­maðurinn Sævar Atli Magnússon lenti þar ásamt um­boðs­manni sínum á leið í viðræður við norska úr­vals­deildar­félagið Brann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×