Fótbolti

Mbappé vinnur gullskóinn í fyrsta sinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mbappé fagnar markinu gegn Real Sociedad, sem tryggði honum gullskóinn.
Mbappé fagnar markinu gegn Real Sociedad, sem tryggði honum gullskóinn. Diego Souto/Getty Images

Kylian Mbappé, framherji Real Madrid, skoraði 31 deildarmark á sínu fyrsta tímabili með félaginu og mun fá evrópska gullskóinn í fyrsta sinn á ferlinum.

Mbappé tryggði sér gullskóinn með tveimur mörkum í lokaleik tímabilsins gegn Real Sociedad á laugardaginn. Hann er fyrsti Frakkinn í tuttugu ár til að vinna gullskóinn, síðan Thierry Henry tímabilið 2004-05, og fyrsti leikmaður Real Madrid til að vinna verðlaunin í tíu ár, síðan Cristiano Ronaldo tímabilið 2014-15. 

Cristiano Ronaldo er síðasti leikmaður Real Madrid sem vann gullskóinn, tímabilið 2014-15. Denis Doyle/Getty Images

Ekki nóg að skora mest

Mbappé var þó ekki markahæsti leikmaðurinn yfir allar deildir Evrópu. Viktor Gyökeres skoraði 39 mörk fyrir Sporting í portúgölsku úrvalsdeildinni. Gullskórinn ræðst hins vegar á stigakerfi sem er byggt á styrkleikalista deildanna (UEFA coefficient).

Hvert mark sem skorað er í topp fimm deildum Evrópu gildir tvö stig. Mark sem skorað er í deild í 6. - 22. sæti styrkleikalistans, eins og portúgölsku úrvalsdeildinni, gildir eitt og hálft stig.

Mark sem skorað er í slakari deildum, eins og Bestu deildinni, gildir eitt stig. Benóný Breki Andrésson, sem bætti markamet Bestu deildarinnar með 21 mark, hefði þurft að skora 63 mörk fyrir KR í fyrra til að vinna evrópska gullskóinn.

Salah hefði þurft þrennu

Tvenna Mbappé í lokaumferðinni skaut honum upp í efsta sæti stigalistans, með 62 stig, en Viktor Gyökeres endaði í öðru sæti með 58,5 stig. 

Mohamed Salah varð í þriðja sætinu með 58 stig, 29 mörk fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Salah hefði þurft þrennu í lokaumferðinni til að vinna gullskóinn með Mbappé, eða fernu til að standa einn uppi sem sigurvegari, en skoraði aðeins eitt mark gegn Crystal Palace.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×