Koma þarf böndum á áfengisveitingasölu íþróttafélaganna að mati formanns menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkurborgar. Við förum yfir málið en áfengissala á íþróttaleikjum hefur stóraukist á síðustu misserum.
Snjósöfnun á Vatnajökli í vetur var heldur rýrari en á meðalári og staðan í Langjökli er enn verri. Við ræðum við jöklafræðing sem segir Langjökul eiga aðeins um eina öld eftir.
Þá sýna læknar okkur hvernig rétt sé að bera á sig sólarvörn en Íslendingar eru víst oft ekki með það á hreinu. Auk þess kíkjum við í athvarf Villikatta þar sem hvert herbergi er troðfullt af köttum og hittum börn í Mosfellsbæ sem gengu að kjörborðinu í dag og fengu að velja úr tillögum að umbótum á opnum svæðum.
Í sportinu verður rætt við Gunnar Nelson sem stígur aftur inn í UFC bardagabúrið í júlí og í Íslandi í dag hittum við eiganda fiskvinnslu sem brýtur upp staðalímyndir í karllægum geira.
Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.