Erfitt var að greina í sjónvarpsútsendingu hvort að Hólmar Örn Eyjólfsson hefði gerst brotlegur, rétt áður en hann skoraði í uppbótartíma leiksins.
Sérfræðingarnir í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld töldu raunar að ekki hefði verið um brot að ræða, út frá þeim myndum sem þeir sáu.
Þeir fengu hins vegar ekki að sjá sjónarhornið sem sýnt er hér að neðan, þar sem vissulega sést að Hólmar stuggar við Viktori Erni Margeirssyni, leikmanni Breiðabliks, sem féll til jarðar, áður en Hólmar skoraði.
Breiðablik endaði á að vinna þennan mikilvæga leik, 2-1, og þar með eru Íslandsmeistararnir einir á toppi deildarinnar með sextán stig eftir sjö leiki. Valsmenn eru hins vegar aðeins í 7. sæti með níu stig, sjö stigum frá toppnum.