Fótbolti

Ísak Andri lagði upp sigur­mark Norrköping

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Andri lagði óvænt upp með góðum skalla.
Ísak Andri lagði óvænt upp með góðum skalla. Norrköping

Ísak Andri Sigurgeirsson lagði upp sigurmark Norrköping þegar liðið vann 2-1 útisigur á Sirius.

Ísak Andri var í byrjunarliði Norrköping og lagði upp það sem reyndist sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf frá hægri þegar rétt rúmur hálftími var liðinn af leiknum. Arnór Ingvi Traustason var einnig í byrjunarliði gestanna, hann nældi sér í gult spjald á 72. mínútu. Bæði Ísak Andri og Arnór Ingvi léku allan leikinn.

Ísak Andri hefur byrjað tímabilið af krafti og þegar tíu umferðum er lokið hefur hann lagt upp fimm mörk og skorað tvö. Eftir sigurinn er Norrköping í 7. sæti með 13 stig.

Ari Sigurpálsson var í byrjunarliði Elfsborg sem vann 4-0 stórsigur á Djurgården. Frederik Ihler, fyrrverandi framherji Vals, skoraði þrennu í leiknum. Ari var tekinn af velli á 65. mínútu.

Elfsborg er í 2. sæti með 22 stig.

Hlynur Freyr Karlsson spilaði 86 mínútur þegar Brommapojkarna tapaði 1-0 fyrir toppliði Mjällby á útivelli.

Brommapojkarna er í 12. sæti með 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×