Fótbolti

Sjáðu nýja pabbann Dag skora gegn Messi og fé­lögum

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson fagnar eftir markið sitt gegn Inter Miami í gærkvöld.
Dagur Dan Þórhallsson fagnar eftir markið sitt gegn Inter Miami í gærkvöld. Getty/Michael Pimentel

Dagur Dan Þórhallsson hefur átt draumadaga undanfarið því viku eftir að hafa orðið pabbi þá skoraði hann í gærkvöld í leik við Lionel Messi og félaga í Inter Miami.

Inter Miami var með gömlu Barcelona-stjörnurnar Messi, Luis Suárez, Sergio Busquets og Jordi Alba allar í sínu liði en varð að sætta sig við 3-0 tap á heimavelli gegn Orlando City. 

Dagur kom inn á sem varamaður á 70. mínútu og skoraði þriðja mark Orlando í uppbótartíma, eins og sjá má hér að neðan.

Dagur og Friðrika Arnardóttir, fyrrverandi markvörður Þróttar, höfðu saman eignast soninn Arnór Dan helgina áður, eða 11. maí, og föðurhlutverkið virðist leggjast vel í Dag miðað við frammistöðuna innan vallar í gær.

Orlando komst með sigrinum upp fyrir Inter Miami í austurdeild MLS-deildarinnar og ófarir Inter halda áfram, því liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum í öllum keppnum. 

Orlando er með 24 stig eftir 14 leiki en Inter með 22 stig eftir 13 leiki, en liðin sitja í 5. og 6. sæti austurdeildarinnar. Philadelphia Union og Cincinnati eru þar efst með 29 stig.

Þó að undanfarnir dagar verði eflaust ógleymanlegir fyrir Dag þá hefðu þeir getað orðið enn betri ef hann hefði verið valinn í A-landsliðshópinn fyrir komandi vináttulandsleiki við Skotland og Norður-Írland 6. og 10. júní. Hann hefur hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfara enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×