Fótbolti

Dortmund náði sætinu á síðustu stundu

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Dortmund hafa ástæðu til að fagna vel og lengi í dag.
Leikmenn Dortmund hafa ástæðu til að fagna vel og lengi í dag. Getty/Leon Kuegeler

Eftir að hafa verið fyrir neðan efstu fjögur sætin í þýsku 1. deildinni í fótbolta nánast alla leiktíðina þá tókst Dortmund á síðustu stundu að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu í dag, í lokaumferð þýsku deildarinnar.

Það verða Dortmund og Frankfurt sem fylgja meisturum Bayern München og Leverkusen í Meistaradeildina á næstu leiktíð, eftir lokaumferðina í dag.

Frankfurt vann 3-1 útisigur gegn Freiburg sem hefði með sigri getað skilið Frankfurt eftir í 5. sæti og komið sér í Meistaradeildina.

Útlitið var reyndar gott fyrir Freiburg þegar Ritsu Doan kom liðinu yfir á 27. mínútu en rétt fyrir hálfleik náði Frankfurt að jafna, með marki frá Ansgar Knauff.

Rasmus Kristensen og Ellyes Skhiri skoruðu svo tvö mörk á þriggja mínútna kafla eftir klukkutíma leik og tryggðu Frankfurt sigur.

Freiburg hefði þó getað komist í Meistaradeildina ef að Dortmund hefði tapað gegn Holstein Kiel en það var aldrei inni í myndinni. Dortmund komst yfir með sjálfsmarki strax á þriðju mínútu og gestirnir frá Kiel misstu Carl Johansson af velli með rautt spjald skömmu síðar. Marcel Sabitzer og Felix Nmecha skoruðu svo í seinni hálfleiknum og tryggðu Dortmund sæti í Meistaradeildinni.

Kiel og Bochum féllu niður í 2. deild en Heidenheim fer í umspil um að halda sér uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×