Huijsen er sagður vera með fimmtíu milljóna punda klásúlu í samningi sínum við Bournemouth, sem fjöldi félaga er tilbúinn að borga en hann er talinn helst vilja fara til Real Madrid.
Sky Sports greinir frá því að Real Madrid hafi sent og fengið samþykkt tilboð í leikmanninn í gær. Aðeins eigi eftir að ganga frá samningi, sem félagið vill gera sem fyrst og klára félagaskiptin í aukaglugganum 1.-10. júní, áður en HM félagsliða hefst.
Fabrizio Romano og Matteo Moretto, sérfræðingar í félagaskiptum fótboltamanna, greindu svo frá því í morgun að umboðsmenn Huijsen væru mættir til Madrídar til að semja.
Huijsen hefur átt frábært fyrsta tímabil hjá Bournemouth, eftir að hafa verið keyptur frá Juventus síðasta sumar fyrir um 15 milljónir evra. Hann er fæddur í Hollandi en flutti til Spánar aðeins fimm ára gamall og kaus að spila fyrir spænska landsliðið. Þreytti frumraun sína þar í mars á þessu ári.